DDR-passport-stamp-white-master-einleikur-v3.png

Það sem er (Det Der eR / DDR) er einleikur eftir danska rithöfundinn Peter Asmussen, byggður á samnefndri skáldsögu hans frá árinu 2012. Sagan gerist í Berlín á kaldastríðsárunum, þegar hugmyndafræðilegur ágreiningur austurs og vesturs stóð sem hæst og Berlínarmúrinn klauf borgina í tvennt. Sögumaðurinn er ung þýsk kona, Renata, sem býr í Austur-Berlín á níunda áratugnum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Á yfirborðinu virðist líf hennar með kyrrum kjörum, en smám saman kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist, undir niðri búa leyndarmál, sorgir, duldar þrár og langanir. Leiktextinn samanstendur af bréfum sem Renata sendir leynilegum elskhuga sínum í Kaupmannahöfn, Dananum Tom, sem hún hefur aðeins hitt einu sinni. Í alræðisríki þar sem njósnir, hlerun og tvöfeldni eru daglegt brauð, hvar er pláss fyrir mennsku og raunverulegar tilfinningar? 

Það sem er er í senn saga um ást, svik, söknuð, sjálfsblekkingu, von, þrá og allt þar á milli. Múrana sem umkringja okkur, löngunina eftir frelsi og leitina að því sem er - og er ekki.

Peter Asmussen

Peter-sc.jpg

Danski verðlaunahöfundurinn Peter Asmussen (1957-2016) skrifaði bæði skáldsögur, leikrit kvikmyndahandrit og er eitt það þekktasta Breaking the Waves sem hann skrifaði með Lars von Trier fyrir kvikmynd hans frá árinu 1996. Í verkum sínum beitir hann tungumálinu sem beittum skurðhníf til að kryfja flóknar og mikilvægar tilvistarspurningar, en þar er mennskan gjarnan í brennidepli. Asmussen vann fjölda verðlauna fyrir verk sín, svo sem Kjell Abell-prisen frá Det Danske Akademi árið 2000, Danske Dramatikeres Forbunds Ærespris árið 2000, Reumert-pris sem höfundur ársins 2010, Allen-prisen árið 2012 og Reumert-pris sem höfundur ársins 2016. Viku síðar var hann látinn eftir áralanga baráttu við sjaldgæft krabbamein. 

Annað Svið er sjálfstætt leikhús Maríu Ellingsen, en fyrir það hefur hún þróað verk, framleitt, leikið og leikstýrt. Þar á meðal hafa verið: Sjúk í ást eftir Sam Shepard, Beðið eftir Beckett, Svanurinn eftir Elizabeth Egloff, Salka Valka – ástarsaga í samstarfi við Hafnafjarðarleikhúsið og Úlfhamssaga sem hlaut sjö tilnefningar til Grímuverðlauna. Þar steig María fram sem leikstjóri í fyrsta sinn og fór fyrir hópi listamanna við að smíða verkið upp úr íslenskum fornaldarrímum. Verkið MammaMamma vann María að í samstarfi við Charlottu Böving og leikhópinn, þar sem byggt var á samtölum við konur. Einnig má nefna Ferðalag Fönixins – um listina að deyja og fæðast á ný, frumsaminn dansleikhús-konsert sem fluttur var á Listahátíð í Reykjavík og erlendis, Enginn hittir einhvern eftir Peter Asmussen og Artic Women - um samband manns og náttúru sem frumsýnt var á Svalbarða nýlega. 

Annad-svid-logo-white.png